Bayern hyggst halda viðræðum við Flick áfram

Hansi Flick vill hætta sem knattspyrnustjóri Bayern München í sumar.
Hansi Flick vill hætta sem knattspyrnustjóri Bayern München í sumar. AFP

Forsvarsmenn þýska knattspyrnuliðsins Bayern München segjast munu halda áfram samningaviðræðum við Hansi Flick, knattspyrnustjóra liðsins, sem greindi í gær frá beiðni sinni um að losna undan samningi sínum hjá stórveldinu.

„Í gær tilkynnti Hansi Flick, knattspyrnustjóri FC Bayern, almenningi þá ósk sína að segja upp samningi sínum, sem rennur út í júní 2023, fyrr eða í lok yfirstandandi leiktíðar. Hansi Flick upplýsti stjórn FC Bayern um þessa beiðni í vikunni.

Hansi Flick og FC Bayern samþykktu síðan að einbeita sér að leikjunum gegn Wolfsburg (í gær), Bayer Leverkusen (20. apríl) og Mainz 05 (24. apríl) svo að allt félagið gæti einbeitt sér að þessum þremur mikilvægu leikjum,“ segir í yfirlýsingu frá þýska félaginu.

Nokkurrar óánægju gætir innan herbúða Bayern með tilkynningu Flicks eftir 3:2-sigurinn gegn Wolfsburg í gær þar sem einnig segir í yfirlýsingunni:

„FC Bayern er ósammála einhliða tilkynningu Hansi Flick og mun halda viðræðunum áfram, eins og samið var um, eftir leikinn í Mainz.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert