Inter missteig sig í toppbaráttunni

Christian Eriksen fagnar marki sínu ásamt liðsfélögum sínum.
Christian Eriksen fagnar marki sínu ásamt liðsfélögum sínum. AFP

Christian Eriksen bjargaði stigi fyrir Inter Mílanó þegar liðið heimsótti Napoli í ítölsku A-deildinni í knattspyrnu í kvöld.

Eriksen jafnaði metin fyrir Inter með marki á 55. mínútu eftir að Samir Handanovic, markvörður Inter, varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark á 36. mínútu og lokatölur því 1:1 í Napólí.

Inter er með 75 stig í efsta sæti deildarinnar og hefur níu stiga forskot á nágranna sína í AC Milan þegar sjö umferðir eru eftir af tímabilinu.

Napoli er í fimmta sæti deildarinnar með 60 stig, tveimur stigum minna en Ítalíumeistarar Juventus.

mbl.is