Höfnuðu aðild að ofurdeildinni

Leikmenn og forráðamenn Porto ætla ekki að taka þátt í …
Leikmenn og forráðamenn Porto ætla ekki að taka þátt í vangaveltum um ofurdeild. AFP

Forseti portúgalska knattspyrnufélagsins Porto staðfesti í dag að félagið hefði hafnað því að taka þátt í stofnun hinnar svokölluðu ofurdeildar í Evrópufótboltanum.

Fréttir höfðu verið á kreiki um að Porto gæti verið eitt þeirra þriggja félaga sem ættu eftir að bætast við tólf félaga hópinn sem stendur að stofnun deildarinnar.

„Við áttum óformleg samskipti við nokkur félög en við gáfum þessu ekki mikinn gaum og fyrir því eru tvær ástæður. Í fyrsta lagi leyfir Evrópusambandið ekki lokaða atburði, eins og til dæmis NBA-körfuboltadeildina. Þar sem portúgalska knattspyrnusambandið er andvígt þessu og þar sem við erum aðilar að UEFA, getum við ekki tekið þátt í neinu sem er gegn gildum og reglum Evrópusambandsins og UEFA,“ sagði Pinto da Costa, forseti Porto, við þarlenda fjölmiðla.

„Við höfum engar áhyggjur af því að vera ekki þarna á meðal. Við erum í Meistaradeild Evrópu og vonumst til með að vera þar áfram um ókomin ár,“ sagði forsetinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert