Hóta að beita samkeppnislögum gegn ofurdeildinni

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Breska ríkisstjórnin hefur heitið því að gera „allt sem þarf“ til að vernda fótbolta í landinu. Það gæti jafnvel falið í sér að beita samkeppnislögum til að hindra að hin nýja evrópska ofurdeild komist á laggirnar.

Oliver Dowden, íþróttamálaráðherra Bretlands, sagði á þingfundi í dag að hann hefði rætt við leiðtoga ensku úrvalsdeildarinnar, enska knattspyrnusambandsins og evrópska knattspyrnusambandsins og sent þeim skýr skilaboð: „Við styðjum ykkur.“

Vilja halda peningunum fyrir sig

Tólf stórlið í evrópskri knattspyrnu, þar af sex ensk lið, tilkynntu á sunnudag að þau hefðu í hyggju að segja sig úr lögum við evrópska knattspyrnusambandið, UEFA, og koma á fót sérstakri einkadeild, ofurdeild, í stað þess að taka þátt í Meistaradeild Evrópu.

Real Madrid og Liverpool eru meðal þeirra liða sem standa …
Real Madrid og Liverpool eru meðal þeirra liða sem standa að nýju ofurdeildinni. Liðin mættust í Meistaradeildinni á dögunum. AFP

Meistaradeildin er verðmætasti sjónvarpsviðburður í heimi og stórliðin hafa lengi verið ósátt við það hvernig tekjum af honum er skipt. Vilja þau fá stærri sneið af kökunni, en evrópska knattspyrnusambandið ver nú háum fjárhæðum af tekjum í styrki til aðildarfélaga um alla álfu – ekki bara liðanna sem best gengur í Meistaradeildinni.

Lengi hefur því verið rætt um þann möguleika að stærstu liðin kljúfi sig frá alþjóðlegu regluverki og stofni eigin deild.

Óhætt er að segja að knattspyrnuheimurinn hafi tekið tíðindunum illa, og gildir einu hvort það eru stuðningsmenn, forráðamenn knattspyrnusambanda eða stjórnmálamenn.

Knattspyrnuyfirvöldin hafa hótað því að liðin, sem ganga til liðs við ofurdeildina, muni ekki fá að taka þátt í neinum keppnum heima fyrir, svo sem deildinni. Þá verði leikmenn sem spila fyrir þau lið ekki gjaldgengir til keppni fyrir landslið sín.

mbl.is