Svipað fyrirkomulag í ofurdeildinni

Bayern München er ríkjandi Evrópumeistari 2020 en hefur ekki hug …
Bayern München er ríkjandi Evrópumeistari 2020 en hefur ekki hug á þátttöku í ofurdeild. AFP

Ný ofurdeild, skipuð tólf af stærstu félögum Evrópu, á að vera með svipuðu fyrirkomulagi og Meistaradeild Evrópu.

AC Milan, Arsenal, Atlético Madrid, Chelsea, Barcelona, Inter Mílanó, Juventus, Liverpool, Manchester City, Manchester United, Real Madrid og Tottenham eru félögin sem standa á bak við deildina og þá eru þrjú til til viðbótar í viðræðum um að koma að stofnun deildarinnar.

Til stendur að tuttugu lið spili í deildinni og því verða fimm laus sæti fyrir önnur félög sem geta tryggt sér þátttökurétt í deildinni með góðum árangri heima fyrir.

Liðin tuttugu munu spila í tveimur tíu liða riðlum þar sem leikið yrði bæði heima og heiman, í miðri viku.

Þrjú efstu liðin myndu fara beint í átta liða úrslit deildarinnar í lok hvers tímabils en liðin í 4.-5. sæti myndu mætast í umspili þar sem leikið yrði heima og heiman um síðustu lausu sætin í átta liða úrslitunum.

Eftir það tekur við eins fyrirkomulag og tíðkast í Meistaradeild Evrópu með tilheyrandi undanúrslitum og auðvitað úrslitaleik. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert