Segir ofurdeildina bjarga fótboltanum

Florentino Perez er forseti Real Madrid og í forsvari fyrir …
Florentino Perez er forseti Real Madrid og í forsvari fyrir nýju "ofurdeildinni." AFP

Florentino Perez, forseti spænska knattspyrnufélagsins Real Madrid, segir að nýja ofurdeildin hafi verið stofnuð til að bjarga fótboltanum.

„Við gerum þetta til að bjarga fótboltanum á erfiðri stundu. Ef við höldum áfram með Meistaradeildina minnkar bara áhuginn og síðan verður allt búið. Nýja fyrirkomulagið sem tekur gildi árið 2024 er fáránlegt. Við verðum öll dauð árið 2024," sagði Perez í spænska sjónvarpsþættinum El Chiringuito de Jugones.

Perez sagði að fjárhagsvandræði vegna kórónuveirufaraldursins hefðu flýtt fyrir stofnun deildarinnar en af völdum hans hefði fjöldi leikja verið leikinn án áhorfenda. Hann fullyrti að ungt fólk hefði ekki lengur áhuga á fótbolta.

„Þegar einu tekjurnar koma orðið í gegnum sjónvarp þarf að finna lausn á því hvernig hægt sé að færa áhorfendum um heim allan áhugaverðari leiki með stóru liðunum. Ungt fólk hefur ekki lengur áhuga á fótbolta. Það finnur sér annað til að eyða tímanum. Með þessu getum við náð til baka einhverju af því fjármagni sem við höfum tapað á faraldrinum. Við verðum að skipuleggja fleiri stóra leiki til að fá meira fjármagn,“ sagði Perez.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert