Strax komnir brestir í samstöðu félaganna tólf?

Arsenal og Liverpool eru tvö af félögunum tólf sem standa …
Arsenal og Liverpool eru tvö af félögunum tólf sem standa að ofurdeildinni. AFP

Sky Sports News kveðst hafa heimildir fyrir því að þegar séu komnir brestir í samstöðu knattspyrnufélaganna tólf sem standa að stofnun ofurdeildarinnar svokölluðu.

Framkvæmdastjórar nokkurra félaganna telji að þeim hafi verið kastað óundirbúnum inn í hringiðuna og þeir séu mjög taugaóstyrkir og vonsviknir yfir því hvernig staðið hafi verið að málinu. „Þetta er ekki það sem við skrifuðum undir,“ hefur Sky Sports eftir einum þeirra.

Nokkur félaganna vilja nú, samkvæmt Sky Sports, að höfuðpaurarnir í þessum aðgerðum stígi umsvifalaust fram og útskýri fyrirætlanir sínar. Félögin hafi talið að málið yrði höndlað á faglegan hátt gagnvart fjölmiðlum en þannig hafi það ekki verið. Einn framkvæmdastjóranna segi að hann sé miður sín yfir stöðunni og hve illa málið hafi verið sett fram.

Þá segir Sky Sports að stjórnarmenn sumra félaganna tólf hafi ekki haft mikla vitneskju um hvað hefði verið í gangi á bak við tjöldin. Einn framkvæmdastjóranna hafi verið spurður hvort félögin væru að því komin að hætta við fyrirætlanir sínar: „Nei, ekki enn, en eftir því sem þetta heldur lengur áfram verður þetta erfiðara,“ var svarið, segir Sky Sports.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert