Við erum Bayern og við höfnum ofurdeild

Bayern München hefur engan áhuga á ofurdeildinni.
Bayern München hefur engan áhuga á ofurdeildinni. AFP

Evrópumeistarar Bayern München staðfestu formlega fyrir stundu að þeir höfnuðu öllum hugmyndum um þátttöku í hinni svokölluðu ofurdeild í evrópska fótboltanum.

Mörgum kom á óvart að þýsku félögin Bayern og Borussia Dortmund skyldu ekki vera í hópi þeirra liða sem tilkynnt voru sem stofnfélagar deildarinnar á sunnudaginn. Dortmund gaf skýrt til kynna í gær að félagið hefði ekki áhuga og eftir að framkvæmdastjórinn Karl-Heinz Rummenigge sagði sína skoðun á málinu í gær hefur Bayern nú sömuleiðis tekið af allan vafa.

„Félagar okkar og stuðningsfólk hafna ofurdeild. Við erum FC Bayern og okkar ósk og okkar markmið er að evrópsk félög upplifi hina frábæru og tilfinningaríku keppni sem Meistaradeild Evrópu er og haldi áfram að þróa hana í samvinnu við UEFA. FC Bayern segir nei við ofurdeild,“ segir í yfirlýsingu Bayern München.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert