Bikarævintýrið á enda

Arnór Sigurðsson kom inn á sem varamaður í síðari hálfleik.
Arnór Sigurðsson kom inn á sem varamaður í síðari hálfleik. Ljósmynd/CSKA Moskva

CSKA Moskva er úr leik í rússnesku bikarkeppninni í knattspyrnu eftir 3:0-tap gegn nágrönnum sínum í Lokomotiv Moskvu í undanúrslitum keppninnar í Moskvu í dag.

Francois Kamano og Grzegorz Krychowiak skoruðu mörk Lokomotiv Moskvu í leiknum og þá varð Ivan Oblyakov, leikmaður CSKA Moskvu, fyrir því óláni að skora sjálfsmark.

Arnór Sigurðsson byrjaði á varamannabekk CSKA Moskvu í dag en kom inn á sem varamaður á 58. mínútu í stöðunni 0:2. Hörður Björgvin Magnússon sleit hásin fyrr í mánuðinum og lék ekki með CSKA Moskvu í dag.

Lokomotiv Moskva og Krylya Sovetov mætast í úrslitum keppninnar hinn 12. maí en Krylya Sovetov lagði Akhmat Grozny að velli í vítakeppni í hinni undanúrslitaviðureigninni.

mbl.is