Fjögur lið eftir í ofurdeildinni - tvö hætt í viðbót

Florentino Peréz, forseti Real Madrid og stjórnarformaður ofurdeildarinnar, situr eftir …
Florentino Peréz, forseti Real Madrid og stjórnarformaður ofurdeildarinnar, situr eftir með fjögur lið í deildinni. AFP

Nú standa aðeins eftir fjögur félög í hinni svokölluðu ofurdeild í evrópska fótboltanum en tvö hafa helst úr lestinni í dag.

Real Madrid, Barcelona, Juventus og AC Milan eru nú ein eftir af þeim tólf félögum sem boðuðu stofnun deildarinnar á sunnudaginn.

Atlético Madrid og Inter Mílanó hafa tilkynnt að þau séu hætt þátttöku í verkefninu. Í gærkvöld hættu öll sex ensku félögin eftir mikinn þrýsting á Bretlandseyjum.

Í yfirlýsingu Atlético Madrid segir að félagið hafi ákveðið á mánudaginn í síðustu viku að taka þátt í verkefninu en nú sé staðan gjörbreytt. Leikmenn og knattspyrnustjóri hafi lýst yfir ánægju með þessa ákvörðun félagsins.

Í yfirlýsingu Inter segir að félagið muni ávallt stefna að því að færa stuðningsfólki sínu það besta sem völ er á í fótboltanum og markmiðið eigi alltaf að vera að bæta mótahald hans til þess að hann sé áfram spennandi fyrir stuðningsfólk á öllum aldri hvarvetna í heiminum.

mbl.is