Vildi helst ekki mæta AC Milan í dag

Roberto De Zerbi faðmar stjóra Inter Mílanó, Antonio Conte, fyrir …
Roberto De Zerbi faðmar stjóra Inter Mílanó, Antonio Conte, fyrir leik liðanna 7. apríl. Síðar kom á daginn að Inter ætlaði í ofurdeildina. AFP

AC Milan tekur á móti Sassuolo í ítölsku A-deildinni í knattspyrnu í dag en knattspyrnustjóri Sassuolo vildi helst ekki mæta AC Milan í dag í kjölfar þeirra fyrirætlana félagsins að taka þátt í evrópsku ofurdeildinni.

AC Milan tilkynnti um hádegið að félagið væri hætt við þátttöku í ofurdeildinni, enda var hún þá orðin afar þunnskipuð og sjö önnur félög af tólf voru þegar búin að stökkva fyrir borð af sökkvandi skipinu.

Roberto De Zerbi, stjóri Sassuolo, kveðst hafa sagt við leikmenn sína og framkvæmdastjóra félagsins hvernig honum væri innanbrjóst.

„Ég hefði ekki viljað spila þennan leik því AC Milan er eitt af stofnliðum ofurdeildarinnar. Ég sagði þetta við Carnivali [framkvæmdastjóra] og ég sagði þetta við leikmennina. Þetta var það sama og að segja að verkamannssonur gæti ekki látið sig dreyma um að verða læknir eða lögfræðingur. Þeir sögðu eiginlega: Ég á boltann og ég ætla að spila með honum,“ sagði De Zerbi, samkvæmt ESPN.

mbl.is