City í úrslit í fyrsta sinn

Leikmenn Manchester City fagna öðru marki Riyad Mahrez í kvöld.
Leikmenn Manchester City fagna öðru marki Riyad Mahrez í kvöld. AFP

Manchester City tryggði sér í kvöld sæti í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í fyrsta sinn í sögu félagsins þegar það vann París Saint-Germain 2:0 í síðari leik liðanna í undanúrslitunum og einvígið þar með samanlagt 4:1. Riyad Mahrez skoraði bæði mörk liðsins í kvöld.

Á sjöundu mínútu fékk PSG vítaspyrnu. Björn Kuipers dómari taldi Oleksandr Zinchenko hafa handleikið knöttinn en eftir að hafa skoðað atvikið á VAR-skjánum tók hann dóminn réttilega til baka, enda fór boltinn einungis ofan á öxl Zinchenko.

Fjórum mínútum síðar var Man City komið yfir. Ederson þrumaði þá boltanum hárnákvæmt og langt fram á Zinchenko sem lagði boltann út á Kevin De Bruyne. Belginn reyndi skot sem fór af Alessandro Florenzi og þaðan barst boltinn til Mahrez sem kláraði með hægri fæti framhjá Keylor Navas í marki PSG, 1:0.

Skömmu síðar, á 17. mínútu, var Marquinhos hársbreidd frá því að jafna þegar góður skalli hans af stuttu færi small í þverslánni eftir flotta fyrirgjöf Ángel Di María.

Tveimur mínútum síðar komst Di María nálægt því að skora sjálfur þegar hann hirti boltann af Bernardo Silva rétt fyrir framan vítateig Man City, reyndi skotið en það sigldi rétt framhjá markinu.

PSG var áfram líklegra til þess að skora næsta mark leiksins en tókst það þó ekki og staðan því 1:0 í hálfleik, Man City í vil.

Það sama var uppi á teningnum til að byrja með í síðari hálfleiknum; PSG gerði sig líklegt til að skora en Rúben Dias fór fyrir sínum mönnum í að henda sér fyrir skot gestanna í hvívetna.

Það var hins vegar Man City sem skoraði annað mark leiksins og kom það á 63. mínútu. Liðið þaut þá í skyndisókn þar sem Phil Foden fann De Bruyne, sem gaf boltann strax inn fyrir á Foden utarlega í teignum, hann átti þéttingsfasta fyrirgjöf með jörðinni á fjærstöngina þar sem Mahrez var aftur mættur og skoraði af miklu öryggi, 2:0.

Á 69. mínútu var einvíginu endanlega lokið þegar Di María sparkaði í Fernandinho eftir viðskipti þeirra við hliðarlínuna og fékk beint rautt spjald að launum.

Ángel Di María var rekinn af velli með beint rautt …
Ángel Di María var rekinn af velli með beint rautt spjald. AFP

2:0 sigurinn þar með í höfn og Man City komið í úrslitaleikinn, þar sem það mætir annað hvort Chelsea eða Real Madríd.

Það kemur í ljós annað kvöld hvort liðið það verður þegar þau mætast í síðari leik undanúrslitanna á Stamford Bridge í Lundúnum. Fyrri leik liðanna í Madríd í síðustu viku lauk með 1:1 jafntefli.

Í einvíginu skoraði Mahrez þrjú af fjórum mörkum Man City, en svo vill til að alsírski landsliðsmaðurinn er fæddur í París.

Riyad Mahrez og Kevin De Bruyne fagna fyrra marki þess …
Riyad Mahrez og Kevin De Bruyne fagna fyrra marki þess fyrrnefnda í kvöld. AFP
Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Man. City 2:0 PSG opna loka
92. mín. Neymar (PSG) á skot framhjá Skot beint úr aukaspyrnu en það fer yfir markið.
mbl.is