Chelsea í úrslit eftir sigur á Real Madríd

Timo Werner kemur Chelsea yfir í leiknum í kvöld.
Timo Werner kemur Chelsea yfir í leiknum í kvöld. AFP

Chelsea tryggði sér sæti í úrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld með því að sigra Real Madríd 2:0 í síðari leik liðanna í undanúrslitunum. Tvö ensk lið munu þar með mætast í úrslitaleiknum þar sem Chelsea og Manchester City eigast við í Istanbúl í lok maí.

Chelsea réði lögum og lofum í leiknum og hefði hæglega getað skorað fleiri mörk.

Eftir rólega byrjun á leiknum færðist fjör í hann eftir tæplega hálftíma leik. Á 26. mínútu átti Karim Benzema frábært skot í D-boganum sem virtist vera að sigla í hornið en Édouard Mendy varði frábærlega í horn.

Tveimur mínútum síðar, eftir laglegan þríhyrning milli Timo Werner og Ngolo Kanté, kom Kanté boltanum á Kai Havertz sem tók vel við honum og vippaði boltanum yfir Thibaut Courtois í marki Real Madríd, vippan fór í þverslána og Werner var svo mættur til að skalla boltann yfir línuna af örstuttu færi, 1:0.

Chelsea fór með eins marks forystu í hálfleik.

Heimamenn mættu svo enn ákveðnari til leiks í síðari hálfleiknum. Á 48. mínútu átti César Azpilicueta frábæra fyrirgjöf á Kai Havertz sem náði laglegum skalla sem small í þverslánni.

Fimm mínútum síðar slapp Mason Mount í gegn eftir glæsilegan undirbúning Werners en hann fór illa að ráði sínu og skaut yfir markið úr dauðafæri.

Eftir tæplega klukkutíma leik fékk Havertz enn eitt dauðafærið þegar hann slapp aleinn í gegn en slappt skot hans of nálægt Courtois sem varði með hægri fæti.

Á 66. mínútu geystist Werner fram í skyndisókn, fann Kanté sér við hlið en varamaðurinn Federico Valverde gerði mjög vel í að komast í veg fyrir skotið á ögurstundu.

Undir lok leiksins, á 85. mínútu, kom loks annað mark Chelsea sem gerði út um einvígið. Kanté vann þá boltann á stórhættulegum stað, kom boltanum á varamanninn Christian Pulisic sem var kominn út við endalínu og fann loks Mount sem gat ekki annað en skorað af stuttu færi, 2:0.

Leikmenn Chelsea fagna öðru marki liðsins, sem Mason Mount skoraði, …
Leikmenn Chelsea fagna öðru marki liðsins, sem Mason Mount skoraði, í kvöld. AFP

Sigurinn í höfn og Chelsea vann þar með einvígið sanngjarnt 3:1 samanlagt eftir að liðin höfðu gert 1:1 jafntefli í Madríd í síðustu viku.

Chelsea og Manchester City mætast í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu á Atatürk-vellinum í Istanbúl þann 29. maí næstkomandi.

Er þetta í þriðja skiptið í sögu Meistaradeildarinnar sem tvö ensk lið mætast í úrslitunum. Chelsea og Manchester United mættust árið 2008, þegar Man Utd vann keppnina, og Tottenham Hotspur og Liverpool mættust árið 2019, þegar Liverpool vann keppnina.

Thomas Tuchel, knattspyrnustjóri, er nú kominn í úrslit Meistaradeildarinnar annað árið í röð, en hann stýrði París Saint-Germain í úrslitaleikinn á síðasta tímabili, þar sem PSG tapaði fyrir Bayern München.

Chelsea 2:0 Real Madrid opna loka
95. mín. Leik lokið Chelsea er komið í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu þar sem það mætir Manchester City!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert