Einum leik frá umspilinu eftir sjö marka leik

Birkir Bjarnason er í slag um að komast í A-deildina …
Birkir Bjarnason er í slag um að komast í A-deildina með Brescia. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Brescia, lið Birkis Bjarnasonar og Hólmberts Arons Friðjónssonar, á enn góða möguleika á að komast í umspilið um sæti í ítölsku A-deildinni í knattspyrnu eftir sigur á Pisa í mögnuðum leik í dag, 4:3.

Birkir skoraði ekki að þessu sinni eftir að hafa verið á skotskónum í þremur leikjum í röð en hann lék fyrstu 66 mínúturnar. Hólmbert er frá vegna meiðsla.

Brescia er í sjöunda sæti af tuttugu liðum fyrir lokaumferð deildarinnar sem fer fram á mánudaginn kemur. Liðið er með 53 stig eins og Chievo og SPAL í sjöunda til níunda sætinu en liðin í sætum þrjú til átta fara í umspil um eitt sæti í A-deildinni. 

Brescia á erfiðan útileik á mánudag gegn Monza sem er í þriðja sæti og gæti komist beint upp með sigri, á meðan SPAL og Chievo eiga heimaleiki gegn liðum í neðri hluta deildarinnar. Líkurnar eru því ekki á bandi Brescia.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert