Ekki ætlunin að móðga neinn

Eden Hazard í leiknum Chelsea á miðvikudagskvöldið.
Eden Hazard í leiknum Chelsea á miðvikudagskvöldið. AFP

Belginn Eden Hazard lenti í hakkavélinni hjá stuðningsmönnum Real Madríd eftir að liðið féll úr keppni gegn hans gamla liði Chelsea í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu. Hann sendi frá sér yfirlýsingu í gær. 

Spænski fjölmiðlar gerðu sér mat úr því að þegar úrslitin lágu fyrir sást Hazard hlæjandi innan um gamla liðsfélaga á Stamford Bridge. Þótti Spánverjunum hann því ekki taka tapið nærri sér. 

Hazard hefur legið undir gagnrýni nánast allt frá því hann gekk í raðir Real sumarið 2019 en hann hefur glímt við meiðsli og ekki náð að sýna mikla takta á vellinum. Gremjan er ekki síst tilkomin vegna þess að félagið greiddi um 100 milljónir evra fyrir leikmanninn. 

„Mér þykir þetta leiðinlegt. Ég hef lesið ýmislegt um mig í dag og það var ekki ætlunin að móðga stuðningsmenn Real Madríd. Mig hefur alla tíð dreymt um að spila með Real Madríd og hingað kom ég til að vinna. Keppnistímabilinu er ekki lokið og við munum berjast til loka deildakeppninnar,“ skrifaði Hazard á Instragram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert