Bæjarar meistarar níunda skiptið í röð

Joshua Kimmich og félagar hans í Bayern München eru Þýskalandsmeistarar, …
Joshua Kimmich og félagar hans í Bayern München eru Þýskalandsmeistarar, níunda árið í röð. AFP

Í dag varð það ljóst að Bayern München er Þýskalandsmeistari árið 2021, níunda árið í röð. Bayern þurfti ekki að spila til að tryggja sér titilinn en sigur Borussia Dortmund gegn RB Leipzig þýðir að Leipzig getur ekki náð Bæjurum.

Dortmund reynir nú hvað það getur að tryggja sér Meistaradeildarsæti og var 3:2 sigur gegn Leipzig í hörkuleik kærkominn í þá átt.

Jadon Sancho reyndist hetja Dortmund og skoraði tvö mörk, þar af sigurmarkið á 87. mínútu. Dortmund hafði komist í 2:0 með mörkum frá Marco Reus á 7. mínútu og Sancho á 51. mínútu.

Leipzig gafst ekki upp og minnkaði muninn með marki Lukas Klostermann á 63. mínútu. Á þeirri 77. jafnaði Dani Olmo svo metin áður en Sancho skoraði sigurmarkið.

Með sigrinum fer Dortmund upp í fjórða sætið, að minnsta kosti tímabundið, sem er síðasta sætið sem gefur þátttökurétt í Meistaradeildinni.

mbl.is