Deildarmeistarar í fyrsta sinn í tæpa tvo áratugi

Leikmenn Sporting fagna deildarmeistaratitlinum innilega í gærkvöldi.
Leikmenn Sporting fagna deildarmeistaratitlinum innilega í gærkvöldi. AFP

Knattspyrnuliðið Sporting frá Lissabon tryggði sér í gær portúgalska meistaratitilinn með því að leggja Boavista 1:0 að velli í gærkvöldi. Um er að ræða fyrsta deildarmeistaratitil félagsins síðan árið 2002, fyrir 19 árum síðan.

Erkifjendur liðsins í Porto og Benfica hafa einokað portúgölsku deildina síðustu tvo áratugi, þar sem Porto hefur unnið hana 11 sinnum og Benfica sjö sinnum.

Á yfirstandandi tímabili hefur Sporting hins vegar ráðið lögum og lofum og verið á toppnum nánast allan tímann.

Þar hefur farið fremstur í flokki sóknartengiliðurinn Pedro Goncalves, sem var ætlað að fylla skarðið sem Bruno Fernandes skildi eftir sig þegar hann samdi við Manchester United í janúar 2020.

Hefur hann sannarlegar staðið undir þeim væntingum en Goncalves er búinn að skora 18 mörk í 30 leikjum í deildinni, auk þess að leggja upp önnur fjögur.

Með sigrinum í gærkvöldi, þar sem Paulinho skoraði sigurmarkið, varð það ljóst að Porto getur ekki lengur náð Sporting, sem er með átta stiga forystu þegar tveimur umferðum er ólokið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert