Skiptir um ríkisfang til að fá að spila

Aymeric Laporte gæti spilað fyrir Spán á EM.
Aymeric Laporte gæti spilað fyrir Spán á EM. AFP

Aymeric Laporte, miðvörður Englandsmeistara Manchester City, hefur ákveðið að skipta um ríkisfang og freista þess að spila fyrir spænska landsliðið í knattspyrnu.

Laporte er 26 ára gamall Frakki og hefur í gegnum árin verið á meðal bestu miðvarða ensku úrvalsdeildarinnar. Þrátt fyrir það hefur hann aldrei hlotið náð fyrir augum Didier Deschamps, landsliðsþjálfara Frakklands, og hefur ekki spilað einn einasta A-landsleik.

Hann á að baki 51 landsleik fyrir yngri landslið Frakklands, þar sem hann lék meðal annars með U21-árs liðinu í 2:3 tapi gegn því íslenska í undankeppni EM á Kópavogsvelli árið 2015.

Laporte er uppalinn hjá spænska félaginu Athletic Bilbao, sem er í Baskahéraðinu þar í landi. Félagið er þekkt fyrir að gera þær kröfur til allra leikmanna sinna að þeir hafi baskneskan bakgrunn til þess að fá að spila fyrir það.

Hann er einmitt með slíkan bakgrunn; amma Laporte og afi eru frá Baskalandi og því gat hann gengið til liðs við Bilbao árið 2010. Þar með var hann einnig gjaldgengur til þess að sækja um spænskt vegabréf, sem hann hefur nú fengið í hendurnar.

Laporte er því gjaldgengur hjá spænska landsliðinu og gæti verið í lokahópnum á EM sem hefst í næsta mánuði.

mbl.is