Diljá sænskur bikarmeistari

Diljá Ýr Zomers í leik með Val á síðasta tímabili.
Diljá Ýr Zomers í leik með Val á síðasta tímabili. mbl.is/Kristinn Magnússon

Diljá Ýr Zomers varð í dag sænskur bikarmeistari í knattspyrnu þegar lið hennar Häcken sigraði Eskilstuna United, 3:0, í úrslitaleik á Bravida-leikvanginum í Gautaborg.

Filippa Angeldahl, Stina Blackstenius og Pauline Hammarlund skoruðu mörk Häcken í síðari hálfleiknum. Diljá var varamaður hjá Häcken og kom ekki við sögu í leiknum.

Þetta er fyrsti titill Häcken í kvennafótboltanum en félagið leikur í fyrsta skipti í efstu deild eftir að hafa fengið keppnisleyfi Svíþjóðarmeistaranna 2020, Kopparbergs-Göteborg, í desember og stóran hluta leikmannahóps meistaraliðsins. Diljá, sem er 19 ára gömul, kom til liðs við Häcken frá Val í vetur en hún á að baki 50 úrvalsdeildarleiki með FH, Stjörnunni og Val.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert