Ólafur hefði misst starfið sama hvað

Ólafur Helgi Kristjánsson.
Ólafur Helgi Kristjánsson. Ljósmynd/Esbjerg

Ólafur Helgi Kristjánsson var í byrjun vikunnar leystur frá störfum sínum sem þjálfari danska B-deildarliðsins Esbjerg eftir að ljóst varð að félagið kæmist ekki upp í dönsku úrvalsdeildina.

Samkvæmt Paul Conway, talsmanni nýrra bandarískra eigenda félagsins, hafi það þó einu gilt; Ólafur hefði verið rekinn þó Esbjerg hefði tryggt sér sæti í úrvalsdeildinni.

Þetta sagði Conway í samtali við danska staðarblaðið JyskeVestkysten, sem Fótbolti.net greinir frá.

„Hann féll ekki að því hvernig við vildum spila þannig að já, honum hefði verið sagt upp störfum þótt við hefðum komist upp,“ sagði hann við blaðið.

Conway sagði eigendurna renna hýru auga til þýskumælandi þjálfara. „Við sjáum að margir þýskumælandi þjálfarar spila eins og við viljum spila. Við vitum hvern við viljum fá en það er ekkert klárt enn þá.“

Búist er við því að bandarísku eigendurnir gangi frá ráðningu á nýjum þjálfara á næstu sjö til 10 dögum.

mbl.is