Loksins leikur hjá Gunnhildi eftir langt hlé

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir var í láni hjá Val í fyrra …
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir var í láni hjá Val í fyrra þegar keppni lá niðri í Bandaríkjunum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bandaríska atvinnudeildin í kvennaflokki í fótbolta, NWSL-deildin, er loksins komin í gang eftir að hafa legið alveg niðri keppnistímabilið 2020 vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir lék fyrsta leikinn með nýju félagi í nótt.

Gunnhildur fór til Orlando Pride í vetur, með stuttri viðkomu hjá Kansas City, en áður hafði lið hennar Utah Royals verið lagt niður og Kansas fékk keppnisleyfið og leikmennina. Gunnhildur lék með Utah tímabilin 2018 og 2019.

Orlando Pride tók á móti Washington Spirit í fyrstu umferðinni í nótt en liðin skildu jöfn, 1:1. Gunnhildur lék allan leikinn sem hægri bakvörður með Orlando.

Ashley Hatch kom Washington yfir á 76. mínútu en Alex Morgan, hin þrautreynda landsliðskona Bandaríkjanna, jafnaði metin á 84. mínútu. Hún kom aftur til Bandaríkjanna eftir áramótin eftir að hafa leikið í nokkra mánuði með Tottenham í ensku úrvalsdeildinni, þegar hún var að ná sér af stað á ný eftir barnsburð. Morgan hefur annars leikið með Orlando Pride frá árinu 2016.

Marta hin brasilíska er einnig meðal samherja Gunnhildar hjá Orlando en hún spilaði allan leikinn á miðjunni hjá liðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert