Þjóðverjinn verður um kyrrt í París

Julian Draxler í leik með París SG.
Julian Draxler í leik með París SG. AFP

Julian Draxler, þýski landsliðsmaðurinn í knattspyrnu, leikur áfram næstu árin með frönsku meisturunum París SG.

Félagið tilkynnti í dag að hann hefði framlengt samning sinn um þrjú ár eða til sumarsins 2024.

Draxler kom til Parísar frá Wolfsburg í janúar 2017 og hefur því leikið með liðinu í hálft fimmta ár. Hann hefur skorað 24 mörk og lagt 39 upp í 172 mótsleikjum fyrir félagið og alls unnið með því tíu titla.

Drexler, sem er 27 ára gamall miðjumaður, var í heimsmeistaraliði Þjóðverja árið 2014 og hefur skorað sjö mörk í 56 landsleikjum. Hann er uppalinn hjá Schalke og lék með liðinu til ársins 2015.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert