Stefnir í svakalega samkeppni

Guðlaugur Victor Pálsson skrifaði undir tveggja ára samning við Schalke.
Guðlaugur Victor Pálsson skrifaði undir tveggja ára samning við Schalke. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þegar ég heyrði fyrst af áhuga Schalke þá varð ég strax mjög spenntur,“ sagði Guðlaugur Victor Pálsson, landsliðsmaður Íslands í knattspyrnu og leikmaður Schalke í Þýskalandi, í samtali við mbl.is.

Guðlaugur Victor skrifaði undir tveggja ára samning við Schalke hinn 25. maí eftir að þýska stórliðið keypti hann af B-deildarfélagi Darmstadt en bæði lið munu leika í B-deildinni á komandi leiktíð.

„Þetta er risastórt félag og eitt það stærsta í Þýskalandi. Það var gríðarlegur heiður að vera orðaður við félagið og ég er mjög stoltur af að vera búinn að skrifa undir samning við þá.

Félagaskiptin gengu hratt fyrir sig og ég var búinn að skrifa undir samning nokkrum vikum eftir að ég heyrði fyrst af áhuga þeirra. Þjóðverjarnir eru mjög skipulagðir og vilja klára hlutina eins hratt og mögulegt er.

Darmstadt vildi ekki missa mig en þeir vildu heldur ekki standa í vegi fyrir mér. Þjóðverjarnir vita allir hversu stórt félag þetta er og þeir litu líka á þetta sem ákveðinn heiður að selja mig þangað,“ sagði Guðlaugur.

Guðlaugur Victor Pálsson hefur verið lykilmaður í liði Darmstadt undanfarin …
Guðlaugur Victor Pálsson hefur verið lykilmaður í liði Darmstadt undanfarin tvö tímabil. Ljósmynd/@sv98

Klúbburinn á heima í efstu deild

Guðlaugur er nú staddur í Kanada í sumarfríi en hann snýr aftur til æfinga 14. júní hjá sínu nýja félagi.

„Ég er mjög spenntur að hefja undirbúningstímabilið með Schalke. Markmiðin fyrir komandi tímabil eru skýr og Schalke er klúbbur sem á heima í efstu deild. Á sama tíma féll Hamburg úr efstu deild fyrir fjórum árum og þeir ætluðu sér beint upp aftur líka. Þrátt fyrir það eru þeir búnir að vera í B-deildinni síðustu fjögur enda er deildin alls ekkert grín.

Hún er erfið og Werder Bremen féll líka sem dæmi og Köln á það líka á hættu að falla. Þarna ertu kominn með risalið sem verða í B-deildinni á næstu leiktíð ásamt Düsseldorf, Nürnberg og Hannover sem eru efstu deildarfélög líka en í B-deildinni. Deildin verður því vægast sagt rosaleg á næsta ári og samkeppnin mikil.“

Darmstadt hafnaði í sjöunda sæti þýsku B-deildarinnar á síðustu leiktíð.
Darmstadt hafnaði í sjöunda sæti þýsku B-deildarinnar á síðustu leiktíð. Ljósmynd/Darmstadt 98

Hagræðingar í rekstri

Ákveðnar breytingar hafa átt sér stað á leikmannahópi liðins fyrir komandi keppnistímabil.

„Schalke er í fjárhagsvandræðum, bæði vegna kórónuveirufaraldursins og svo líka vegna þess að liðið féll um deild. Það eru leikmenn hjá félaginu á svakalegum samningnum enda ekki langt síðan liðið lék í Meistaradeild Evrópu.

Klúbburinn hefur því þurft að skera eitthvað niður og hagræða í rekstri. Það er búið að fá inn sterka leikmenn sem hafa verið lykilmenn hjá sínum liðum í B-deildinni.

Það breytir hins vegar ekki markmiðum félagsins sem er að fara beint upp aftur,“ sagði Guðlaugur Victor í samtali við mbl.is.

mbl.is