Frakkar sigruðu Þjóðverja – Ítalir lögðu Hollendinga

Kenza Dali skoraði sigurmark Frakka gegn Þjóðverjum í kvöld.
Kenza Dali skoraði sigurmark Frakka gegn Þjóðverjum í kvöld. AFP

Mikill fjöldi vináttulandsleikja fór fram í knattspyrnu kvenna í dag og í kvöld. Nokkrir stórleikir voru á dagskrá þar sem Frakkland, Ítalía og Svíþjóð unnu öll með minnsta mun.

Kenza Dali, samherji Dagnýjar Brynjarsdóttur hjá West Ham United, skoraði sigurmark Frakka gegn Þýskalandi eftir hálftíma leik og tryggði liðinu 1:0 sigur.

Cristiana Girelli tryggði svo Ítalíu 1:0 sigur gegn Evrópumeisturum Hollands með sigurmarki úr vítaspyrnu á 14. mínútu.

Þá skoraði Stina Blackstenius, samherji Diljár Ýrar Zomers í Häcken, sigurmark Svíþjóðar gegn nágrönnunum í Noregi. Kom markið á 66. mínútu og enduðu leikar 1:0 þar sömuleiðis.

Þá mættust Danmörk og Ástralía í fjörugum leik þar sem Danir skoruðu þrjú mörk á 10 mínútna kafla frá 15. – 25. mínútu, þar af tvö sjálfsmörk og eitt frá Rikke Sevecke, leikmanni Everton.

Staðan 3:0 í hálfleik, Dönum í vil, og var það staðan allt þar til Mary Fowler klóraði í bakkann á 87. mínútu og Clare Polkinghorne minnkaði muninn í eitt mark á þriðju mínútu uppbótartíma. Lokatölur 3:2.

Spánn fékk svo Belgíu í heimsókn og vann öruggan 3:0 sigur með mörkum frá Marionu Caldentey, Alexiu Putellas og Aitönu Bonmatí.

mbl.is