Philipp Lahm: Frjáls og friðsöm samkeppni Evrópuþjóðanna

Puskas Arena í Búdapest er einn af völlunum þar sem …
Puskas Arena í Búdapest er einn af völlunum þar sem keppt verður á EM. AFP

Stundum er sagt að landslið séu tímaskekkja og sagan segir okkur vissulega að hugtakið þjóð hafi ekki alltaf verið á hreinu innan Evrópu. En með því að nota það rétt og af ábyrgð getur það styrkt sjálfsvitund þjóða án þess að valda tjóni. Og keppni milli þjóða, Evrópumeistaramót, getur styrkt ímynd álfunnar með aðstoð leikgleðinnar í fótboltanum.

Saga Evrópukeppninnar sýnir að íþróttin getur á breiðum grundvelli brúað bilið á milli þjóða. Austrið og vestrið kynntust betur. Fyrsta mótið sem var haldið árið 1960, á dögum kalda stríðsins, unnu Sovétmenn. Lev Jashin, „svarti pardusinn“, frá Moskvu er enn þekkt nafn í fótboltaheiminum. Fyrirmyndin að hinum spilandi markverði og hann var eini markvörðurinn sem var kjörinn knattspyrnumaður ársins í Evrópu.

Árið 1976 varð Tékkóslóvakía Evrópumeistari í Belgrad. Á því móti vann liðið sigra á Englandi, Portúgal og báðum úrslitaliðum síðasta heimsmeistaramóts, Þýskalandi og Hollandi. Antonín Panenka varð frægur þegar hann gabbaði Sepp Maier með því að vippa boltanum í mitt markið í vítaspyrnukeppninni. Slíkar vítaspyrnur hafa síðan verið nefndar eftir þessum frumherja frá Prag.

Evrópumótið 1996 var haldið á Englandi eftir að aðildarþjóðum Evrópu hafði fjölgað í kjölfar falls járntjaldsins og þangað mættu Króatar og Tékkar, nýjar þjóðir með lið full sjálfstrausts. Á miðjum fyrsta áratug aldarinnar fylgdi UEFA í kjölfar stækkunar Evrópubandalagsins til austurs og lét Pólland og Úkraínu fá EM 2012.

Sagan í Glasgow og Búdapest

Í ár verður lokakeppni EM í fyrsta skipti leikin í ellefu löndum og þar á meðal á stöðum þar sem saga fótboltans var skrifuð. Glasgow var ein af fæðingarborgum fótboltans á 19. öldinni og er eina borg í heimi með þrjá knattspyrnuleikvanga sem rúma minnst 50 þúsund áhorfendur. Hampden Park er sá elsti í heimi. Búdapest var ásamt Vínarborg heimavöllur hins skemmtilega Dónár-fótbolta. Leikvangurinn þar er nefndur eftir Ferenc Puskás sem franska íþróttadagblaðið L’Équipe heiðraði sem knattspyrnumann aldarinnar í Evrópu.

Eins mótsagnakennt og það kann að vera, þá eru töfrar Evrópumóts og heimsmeistarakeppni fólgnir í því að leikskipulagið er ekki eins gott og í félagsliðafótboltanum. Einfaldlega vegna þess að landsliðsþjálfarar vinna ekki eins mikið með leikmennina og geta ekki mótað þá eins mikið. Svona er þetta líka í körfubolta og handbolta. Auk þess er ekki hægt að styrkja liðin með leikmannakaupum og þau eru skipuð ólíkum leikmönnum. Í sumar stöður þarf að fylla með mönnum sem ekki spila þær vanalega.

Pistillinn í heild sinni er í Morgunblaðinu í dag og þar kemur Ísland við sögu

Philipp Lahm var fyrirliði þýska landsliðsins í knattspyrnu þegar það varð heimsmeistari árið 2014 og lék með Bayern München í fimmtán ár. Hann er mótsstjóri Evrópumóts karla sem fram fer árið 2024. Pistlar hans um knattspyrnu, „Mitt sjónarhorn“, birtast reglulega í Morgunblaðinu. Þeir eru skrifaðir í samvinnu við Oliver Fritsch, íþróttaritstjóra þýska netmiðilsins Zeit Online, og birtast í fjölmiðlum nokkurra Evrópulanda. Í þriðja pistli sínum í dag fjallar Lahm í sögulegu samhengi um Evrópukeppni karla í fótbolta en lokakeppni EM 2020 sem haldin er í ellefu borgum víðs vegar um Evrópu í þetta skipti hefst á morgun eftir að hafa verið frestað um eitt ár vegna útbreiðslu kórónuveirunnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »