Leikurinn kláraður í kvöld að beiðni leikmanna

Leikmenn beggja liða vildu klára leikinn.
Leikmenn beggja liða vildu klára leikinn. AFP

Leikur Danmerkur og Finna, sem hófst klukkan 16 og var flautaður af undir lok fyrri hálfleiks eftir að Christian Eriksen hneig niður og þurfti á endurlífgun að halda, mun halda áfram klukkan 18:30 að beiðni leikmanna beggja liða.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá UEFA.

Ástæðan fyrir því að leikmenn beggja liða sjá sér fært um að klára leikinn í kvöld er sú að líðan Eriksens er stöðug og hann vakandi á ríkisspítalanum í Kaupmannahöfn, þar sem verið er að skoða hann nánar.

Eins og segir í tilkynningunni munu síðustu fjórar mínútur fyrri hálfleiks vera spilaðar, þá tekur við fimm mínútna leikhlé og síðari hálfleikurinn hefst svo.

Þessi frestun á leiknum breytir engu um áætlaða byrjun á leik Belgíu og Rússlands í B-riðli, sem Finnland og Danmörk eru einnig í, og hefst klukkan 19 í Sankti Pétursborg í Rússlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert