Mjög tilfinningaríkt kvöld

Markku Kanerva á hliðarlínunni í kvöld.
Markku Kanerva á hliðarlínunni í kvöld. AFP

„Þetta var mjög tilfinningaríkt kvöld,“ sagði Markku Kanerva, landsliðsþjálfari Finnlands, á blaðamannafundi eftir 1:0-sigurinn á Danmörku í fyrsta leik liðanna á EM á Parken í Kaupmannahöfn í kvöld. 

Seint í fyrri hálfleik hneig Christian Eriksen, miðjumaður Dana, niður og þurfti á end­ur­lífg­un að halda. Leikurinn var flautaður af en svo haldið áfram rúmum klukkutíma síðar. 

„Þetta var fyrsti leikurinn okkar á stórmóti á móti Dönum á þeirra heimavelli. Það var mjög tilfinningaríkt að heyra þjóðsönginn. Svo gerðist þetta með Eriksen, mjög dramatískt og sorglegt. Að lokum vinnum við svo leikinn. 

Auðvitað er ég ánægður með sigurinn en við munum muna eftir þessu kvöldi lengi af mörgum ástæðum,“ sagði Kanerva. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert