Austurríki vann fyrsta leik

Austurríkismenn fagna þriðja marki sínu í Svíþjóð í dag.
Austurríkismenn fagna þriðja marki sínu í Svíþjóð í dag. AFP

Austurríki vann 3:1-sigur á Norður-Makedóníu í fyrsta leik liðanna í C-riðli Evrópumeistaramótsins í knattspyrnu sem fram fór í Svíþjóð í dag. Hollendingar og Úkraína, sem einnig leika í C-riðli, mætast í kvöld.

Stefan Lainer kom Austurríkismönnum í forystu á 18. mínútu með afar laglegu marki. Marcel Sabitzer átti þá frábæra fyrirgjöf frá vinstri, til Lainer sem kom aðvífandi að nærstönginni og skoraði með því að stýra boltanum í fjærhornið. Margreyndi markaskorarinn Goran Pandev jafnaði hins vegar metin tíu mínútum síðar af stuttu færi eftir mistök Daniel Bachmann í marki Austurríkis en hann missti boltann til Pandev sem afgreiddi í autt mark.

Austurríkismenn áttu þó eftir að snúa taflinu við í síðari hálfleik. Michael Gregoritsch kom Austurríki aftur í forystu á 78. mínútu og varamaðurinn Marko Arnautovic innsiglaði svo sigurinn með þriðja markinu á 89. mínútu.

Norður-Makedónía mætir Úkraínu í annarri umferðinni og Austurríki spilar við Holland á fimmtudaginn næsta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert