Grét mikið því ég var hræddur

Romelu Lukaku biður til æðri máttarvalda.
Romelu Lukaku biður til æðri máttarvalda. AFP

Romelu Lukaku skoraði tvö mörk fyrir Belgíu í 3:0-sigrinum á Rússlandi á EM karla í fótbolta í Sankti-Pétursborg í gærkvöldi.

Lukaku viðurkennir að hann hafi verið með hugann við allt annað en fótbolta stuttu fyrir leik því Christian Eriksen, liðsfélagi hans hjá Inter Mílanó, hneig niður í leik Dana og Finna stuttu áður.

Óttast var um líf Eriksens, en hann komst aftur til meðvitundar eftir aðhlynningu lækna og er líðan hans stöðug á sjúkrahúsi í Kaupmannahöfn.

„Ég naut þess að spila en þetta var mjög erfitt fyrir mig því ég var að hugsa um Christian Eriksen. Ég grét mikið því ég var hræddur. Við höfum átt góða tíma saman og hugur minn er með kærustunni hans og tveimur börnum,“ sagði Lukaku á blaðamannafundi eftir leik.

mbl.is