Þurftu að kalla inn fimmtán nýja leikmenn

Gabriel Barbosa og Neymar fagna þriðja marki Brasilíumanna í kvöld.
Gabriel Barbosa og Neymar fagna þriðja marki Brasilíumanna í kvöld. AFP

Brasilíumenn hófu keppni í Ameríkubikarnum í knattspyrnu karla, Copa America, af krafti í kvöld með því að sigra Venesúela, 3:0, í upphafsleik keppninnar.

Andstæðingar þeirra mættu þó laskaðir til leiks því átta leikmenn Venesúela þurftu að fara í sóttkví vegna kórónuveirusmita og fimmtán nýir leikmenn voru kallaðir inn í hópinn sólarhring fyrir leikinn. Tveir nýliðar voru í byrjunarliðinu og aðeins þrír sem léku með liðinu gegn Úrúgvæ í undankeppni HM síðasta þriðjudag.

Marquinhos skoraði eina mark fyrri hálfleiks, Neymar bætti við marki úr vítaspyrnu um miðjan síðari hálfleik og Gabriel Barbosa innsiglaði sigurinn undir lokin.

Brasilíumenn halda keppnina en þeir tóku hana að sér með um það bil viku fyrirvara eftir að Argentína varð að hætta við mótshaldið vegna aukinnar útbreiðslu kórónuveirunnar.

mbl.is