Diego semur við Albacete

Diego Jóhannesson í leik með íslenska landsliðinu árið 2017.
Diego Jóhannesson í leik með íslenska landsliðinu árið 2017. AFP

Knattspyrnumaðurinn Diego Jóhannesson er búinn að semja við Albacete sem leikur í C-deildinni á Spáni á komandi tímabili. Samningur Diegos við uppeldisfélag sitt, Real Oviedo, var runninn út og því var honum frjálst að semja við nýtt lið.

Albacete lék líkt og Oviedo í B-deildinni á liðnu tímabili en fyrrnefnda liðið féll úr henni með því að lenda í neðsta sæti. Real Oviedo hafnaði í 13. sæti af 22 liðum.

Diego, sem er 27 ára gamall, á spænska móður og íslenskan föður og hefur leikið þrjá A-landsleiki fyrir Íslands hönd, þann síðasta árið 2017. Hann hefur leikið með Real Oviedo allan sinn feril, að undanskildum hluta síðasta tímabils þegar hann var í láni hjá Cartagena í C-deildinni. Diego fékk fá tækifæri á nýliðnu tímabili, lék aðeins sjö leiki í B-deildinni og skoraði eitt mark. 

Samningur hans við Albacete er til tveggja ára með möguleika á eins árs framlengingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert