Liðsfélagi Eriksens tárvotur í viðtali

Martin Braithwaite, númer 9, fylgir Eriksen af velli á laugardag.
Martin Braithwaite, númer 9, fylgir Eriksen af velli á laugardag. AFP

Danski knattspyrnumaðurinn Martin Braithwaite brotnaði niður í viðtali við TV2 í morgun er hann var spurður út í liðsfélaga sinn Christian Eriksen. Eriksen fékk hjartastopp í leiknum við Finnland á EM á laugardag og barðist fyrir lífi sínu á vellinum, áður en hann var fluttur á sjúkrahús.

„Við héldum að við værum að missa liðsfélaga,“ sagði Braithwaite grátandi. „Hausinn fór á flug og fótbolti er ekki það sem þú hugsar um í svona aðstæðum. Við höfum fengið mikinn stuðning, sem við erum þakklátir fyrir. Ég hlakka til að spila fyrir Christian á fimmtudag,“ sagði Braithwaite.

Danir mæta Belgum á Parken næstkomandi fimmtudag, en Belgar unnu öruggan 3:0-sigur á Rússum í fyrsta leik. Danir máttu þola 0:1-tap fyrir Finnum.

mbl.is