Mark eftir 24 sekúndur í auðveldum sigri

Reynsluboltinn Carli Lloyd fagnar marki sínu í nótt.
Reynsluboltinn Carli Lloyd fagnar marki sínu í nótt. AFP

Heimsmeistarar Bandaríkjanna áttu ekki í neinum vandræðum með Jamaíka þegar liðin mættust í vináttulandsleik í knattspyrnu kvenna í Houston í nótt.

Óhætt er að segja að tónninn hafi strax verið gefinn þar sem Carli Lloyd kom Bandaríkjakonum yfir eftir aðeins 24 sekúndna leik.

Með þessu marki varð Lloyd elsti leikmaður í sögu bandaríska kvennalandsliðsins til að skora fyrir það, en hún verður 39 ára eftir rúman mánuð. Hún hefur nú skorað 125 mörk í 303 landsleikjum. Er Lloyd þriðja leikjahæsta landsliðskonan frá upphafi.

Skömmu síðar var staðan orðin 2:0, þegar Lindsey Horan skoraði úr vítaspyrnu á 7. mínútu.

Heimakonur voru ekkert á því að slá slöku við og bættu við þriðja markinu á 22. mínútu þegar Margaret Purce skoraði.

Staðan 3:0 í hálfleik og reyndist síðari hálfleikurinn talsvert rólegri.

Alex Morgan kom inn á sem varamaður í hálfleik fyrir Lloyd og skoraði fjórða og síðasta mark Bandaríkjakvenna á fyrstu mínútu uppbótartíma.

4:0 voru lokatölur og eru heimsmeistararnir nú taplausir í 41 leik. Þá hefur liðið ekki tapað á bandarískri grundu í 55 leikjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert