Segir Dani ekki hafa verið neydda til að spila

Leikmenn danska liðsins voru í áfalli þegar Eriksen hneig niður.
Leikmenn danska liðsins voru í áfalli þegar Eriksen hneig niður. AFP

Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, var harðlega gagnrýnt fyrir skilningsleysi í garð danska landsliðsins eftir að Christian Eriksen liðsmaður þess fékk hjartastopp í leiknum gegn Finnlandi á Evrópumótinu á laugardaginn var.

Leikurinn var stöðvaður í kjölfar atviksins og Eriksen færður á sjúkrahús eftir að hann barðist fyrir lífi sínu á vellinum. Þrátt fyrir það fengu Danir þrjá kosti; klára leikinn sama dag, leika hann í hádeginu daginn eftir, eða fá dæmt 0:3-tap.

Peter Schmeichel, besti markvörður danska liðsins frá upphafi, er á meðal þeirra sem hafa gagnrýnt UEFA fyrir framkvæmdina. Zbigniew Boniek, varaforseti UEFA, segir Dani hins vegar ekki hafa verið neydda í neitt.

„Það var engin góð lausn á þessu máli. Þetta er ótrúlega ósanngjarnt en peningar réðu alls ekki ferðinni. Þetta voru allt slæmir valkostir, en enginn var neyddur til neins,“ sagði Boniek við sport.pl í heimalandi sínu Póllandi.

mbl.is