Frakkar unnu stórveldaslaginn í München

Kylian Mbappé fagnar frönskum sigri í leikslok.
Kylian Mbappé fagnar frönskum sigri í leikslok. AFP

Frakkar sigruðu Þjóðverja í uppgjöri stórveldanna, 1:0, í fyrstu umferð F-riðils Evrópumóts karla í knattspyrnu í München í kvöld.

Sjálfsmark á 20. mínútu skildi liðin að og Frakkar eru nú með þrjú stig eins og Portúgalar sem unnu Ungverja fyrr í dag, 3:0. Það er því komin mikil pressa á þýska liðið sem mætir Evrópumeisturum Portúgals í annarri umferð riðilsins á laugardaginn en Frakkar leika þá við Ungverja.

Frakkar náðu forystunni á 20. mínútu þegar Lucas Hernández átti fasta sendingu fyrir mark Þjóðverja frá vinstri og Mats Hummels sendi boltann í eigið mark.

Mats Hummels (5) skorar sjálfsmark gegn Frökkum án þess að …
Mats Hummels (5) skorar sjálfsmark gegn Frökkum án þess að Manuel Neuer fái nokkuð að gert í þýska markinu. AFP

Þjóðverjar komu betur inn í leikinn eftir markið og Ilkay Gündogan komst í gott færi en skaut framhjá franska markinu. Staðan var 1:0 í hálfleik.

Adrien Rabiot átti skot í utanverða stöng þýska marksins á 52. mínútu og Serge Gnabry fékk gott færi fyrir Þjóðverja á 54. mínútu en skaut rétt yfir franska markið.

Kevin Mbappé skoraði laglegt mark fyrir Frakka á 66. mínútu en var dæmdur rangstæður. Mbappé slapp síðan innfyrir vörn Þjóðverja á 78. mínútu og inn í vítateiginn þar sem Mats Hummels náði honum og hirti boltann með frábærri tæklingu.

Paul Pogba reynir að skalla að marki Þjóðverja í leiknum …
Paul Pogba reynir að skalla að marki Þjóðverja í leiknum í kvöld. AFP

Frakkar skoruðu aftur á 85. mínútu þegar Karim Benzema sendi boltann í netið eftir skyndisókn og sendingu frá Mbappé en aftur reyndist vera um rangstöðu að ræða.

Leroy Sané freistaði þess að reyna að jafna fyrir Þjóðverja beint úr aukaspyrnu af 20 m færi á 88. mínútu en skaut yfir mark Frakka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert