Fyrstur til að spila á fimm Evrópumótum

Cristiano Ronaldo, fyrirliði portúgalska landsliðsins, heldur áfram að slá met.
Cristiano Ronaldo, fyrirliði portúgalska landsliðsins, heldur áfram að slá met. AFP

Cristiano Ronaldo, fyrirliði portúgalska landsliðsins í knattspyrnu, verður í dag fyrsti knattspyrnumaðurinn sem tekst að spila á fimm Evrópumótum.

Ronaldo er í byrjunarliði Portúgals sem mætir Ungverjalandi í Búdapest í F-riðli mótsins klukkan 16 í dag og verður þar með sá fyrsti til sem afrekar þetta á meðal karla.

Fyrsta mótið hans kom árið 2004 og hefur hann tekið þátt í öllum Evrópumótum síðan þá.

Markvörðurinn Iker Casillas var valinn í landsliðshópa Spánar á fimm Evrópumótum á ferli sínum en í fyrsta skiptið sem það gerðist, á EM 2000, spilaði hann hins vegar ekki mínútu, en gerði það á næstu fjórum.

Ronaldo og Casillas eru einu tveir leikmennirnir sem hafa verið valdið í fimm lokahópa fyrir EM.

Ronaldo á fleiri met tengd EM. Hann er til að mynda leikjahæsti leikmaðurinn í sögu lokamótsins með 21 leik og kemur leikur númer 22 í dag.

Þá er hann jafn markahæstur í sögu mótsins með níu mörk. Frakkinn Michel Platini deilir því meti en öll níu mörk hans komu hins vegar á eina og sama mótinu, EM 1984, þar sem hann þurfti aðeins fimm leiki til að skora þennan fjölda marka er Frakkar unnu mótið.

Ronaldo getur því í dag bætt markametið, þótt markahlutfall Platinis verði vísast aldrei bætt.

Auk þess getur hann með sigri í dag unnið sinn 12. leik á lokamóti EM og hirt þannig einsamall metið yfir flesta sigra, sem eru 11 sem stendur, en hann deilir því með Cesc Fábregas. 

mbl.is