Hélt ég myndi koma og spila með sígarettu í munnvikinu

Gonzalo Higuaín í baráttunni í leik með Inter Miami á …
Gonzalo Higuaín í baráttunni í leik með Inter Miami á tímabilinu. AFP

Gonzalo Higuaín, framherji Inter Miami í bandarísku MLS-deildinni, segir það hafa komið honum á óvart hversu erfitt sé að spila í deildinni.

„Ég hélt að ég myndi koma hérna og spila með sígarettu í munnvikinu en í staðinn er þetta erfitt. Þetta er erfið deild. Ég hef komist að því að hún er svipuð ítölsku deildinni.

Á Spáni og Englandi er auðveldara að standa sig betur, en á Ítalíu þjáistu ef þú þekkir ekki deildina,“ sagði Higuaín í samtali við Christian Vieri, fyrrverandi landsliðsmann Ítalíu, á Bobo TV, Twitch-rás Vieri.

Higuaín, sem er 33 ára gamall, á að baki frábæran feril þar sem hann lék með Real Madríd, Napoli, Juventus, AC Milan og Chelsea. Honum gekk illa í bandarísku deildinni til að byrja með, en hefur þó fundið markaskóna að undanförnu.

Inter Miami er í eigu David Beckham og þjálfari liðsins er Phil Neville, en þeir voru sem kunnugt er samherjar hjá Manchester United og enska landsliðinu um langt árabil.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert