Hollendingar rótburstuðu Norðmenn - versta tap í sögunni

Vivianne Miedema, Sherida Spitse og Danielle van de Donk skoruðu …
Vivianne Miedema, Sherida Spitse og Danielle van de Donk skoruðu allar og fagna hér einu markanna í dag. AFP

Hollendingar, fyrstu andstæðingar Íslendinga í undankeppni HM kvenna í knattspyrnu í haust, sýndu styrk sinn í dag með því að rótbursta Norðmenn, 7:0, í vináttulandsleik sem fram fór í Enschede í Hollandi.

Staðan var 2:0 í hálfleik eftir mörk frá Vivianne Miedema og Sherida Spitse. Í seinni hálfleik stóð ekki steinn yfir steini hjá norska liðinu, þar sem María Þórisdóttir lék allan tímann í miðri vörninni. Jamie Roord, Miedema, Shanice van de Sanden og Danielle van de Donk bættu við mörkum auk þess sem Norðmenn skoruðu sjálfsmark.

Þetta eru ótrúlegar tölur, ekki síst þegar horft er til þess að Holland er í þriðja sæti heimslistans en Noregur er í tólfta sæti og hefur um langt árabil verið framarlega í flokki kvennalandsliða heims.

Úrslitin eru söguleg fyrir norska liðið en þetta er stærsta tap þess frá upphafi. Það stærsta til þessa var 5:0 ósigur gegn Kínverjum árið 1999.

mbl.is