Paragvæ kom til baka í síðari hálfleik

Leikmenn Paragvæ fagna sigrinum í nótt.
Leikmenn Paragvæ fagna sigrinum í nótt. AFP

Paragvæ byrjar Ameríkubikarinn í knattspyrnu karla, Copa America, með besta móti. Í nótt vann liðið góðan 3:1-endurkomusigur gegn Bólivíu í A-riðli keppninnar.

Erwin Saavedra kom Bólivíu í 0:1 með marki úr vítaspyrnu á 10. mínútu, sem var loks dæmd eftir langvinna athugun dómaranna á VAR-skjánum.

Paragvæ vildi fá vítaspyrnu um miðjan hálfleikinn en eftir aðra langvinna athugun var ákveðið að dæma ekki víti.

Vegna þessara og annarra tafa í fyrri hálfleik endaði uppbótartíminn á að vera heilar 11 mínútur. Á níundu mínútu uppbótartíma fyrri hálfleiks fékk Jaume Cuéllar, leikmaður Bólivíu, sitt annað gula spjald og þar með rautt.

Bólivíumenn spiluðu því allan síðari hálfleikinn manni færri.

Paragvæ safnaði vopnum sínum og jafnaði metin eftir rúmlega klukkutíma leik. Þar var að verki Alejandro Romero.

Aðeins þremur mínútum síðar, á 65. mínútu, skoraði annar Romero, Ángel, og kom Paragvæ þannig í forystu.

Ángel gulltryggði svo sigurinn með öðru marki sínu og því þriðja hjá Paragvæ á 80. mínútu, 3:1.

Þar við sat og Paragvæ er eitt á toppi A-riðils eftir sigur næturinnar, þar sem Argentína og Síle skildu jöfn, 1:1, í riðlinum í gærkvöldi.

mbl.is