Portúgalar skoruðu þrjú undir lokin - tvöfalt met Ronaldo

Cristiano Ronaldo skorar annað mark Portúgala úr vítaspyrnu í Búdapest.
Cristiano Ronaldo skorar annað mark Portúgala úr vítaspyrnu í Búdapest. AFP

Evrópumeistarar Portúgals hófu titilvörn sína á Evrópumóti karla í fótbolta í Búdapest í dag með því að vinna torsóttan sigur á Ungverjum, 3:0.

Portúgalar sóttu mun meira nánast allan leikinn en gekk illa að ráða við baráttuglaða og vel skipulagða Ungverja sem voru hvattir gríðarlega af 67 þúsund áhorfendum á Puskás Aréna en heimilt var að vera með fullskipaðan völl.

Cristiano Ronaldo fyrirliði Portúgala fékk besta færið þegar hann skaut yfir opið mark Ungverja af markteig seint í fyrri hálfleiknum. Péter Gulácsi varði mark Ungverja nokkrum sinnum mjög vel.

Þegar allt virtist stefna í jafntefli náði Raphaël Guerreiro að skora fyrir Portúgala á 84. mínútu með skoti í varnarmann og inn, 1:0.

Tveimur mínútum síðar fengu Portúgalar vítaspyrnu þegar Rafael Silva var togaður niður í vítateig Ungverja og úr henni skoraði Ronaldo, 2:0.

Þar með setti Ronaldo nýtt markamet í lokakeppni EM en hann varð með þessu fyrsti leikmaðurinn til að skora samtals 10 mörk í í lokakeppnum Evrópumóta. Fyrir leikinn deildu hann og Michel Platini metinu en Platini skoraði níu mörk í aðeins fimm leikjum árið 1984.

Ronaldo var ekki hættur því hann bætti við marki á annarri mínútu uppbótartímans. Eftir skemmtilegan samleik í vítateig Ungverja lék hann á markvörðinn og skoraði, 3:0. EM-mörkin hans eru því orðin 11 talsins.

Cristiano Ronaldo skorar þriðja mark Portúgala eftir að hafa leikið …
Cristiano Ronaldo skorar þriðja mark Portúgala eftir að hafa leikið á Gulácsi markvörð. AFP

Ronaldo setti líka nýtt leikjamet í lokakeppni EM með því að spila sinn 22. leik en hann er sá fyrsti sem spilar á fimm Evrópumótum.

Frakkland og Þýskaland eru einnig í F-riðlinum og mætast í München klukkan 19 í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert