Segist góður miðað við aðstæður

Eriksen birti mynd af sér úr sjúkrarúminu.
Eriksen birti mynd af sér úr sjúkrarúminu. Instagram/Christian Eriksen

Danski landsliðsmaðurinn Christian Eriksen birti í morgun færslu á Instagram þar sem hann þakkaði fyrir stuðninginn eftir að hafa hnigið niður í leik Danmerkur gegn Finnlandi á Evrópumótinu í knattspyrnu á laugardag. Eriksen hafði farið í hjartastopp en var endurlífgaður á Parken. 

Í færslunni segist Eriksen vera góður miðað við aðstæður. Hann segir að stuðningur og kveðjur í kjölfar atviksins skipti sig og fjölskyldu sína miklu máli. 

„Ég á enn eftir að fara í gegnum einhverjar rannsóknir á sjúkrahúsinu, en mér líður allt í lagi,“ skrifar Eriksen. 

„Núna mun ég hvetja strákana í danska liðinu áfram í næstu leikjum. Spilið fyrir alla Danmörku,“ segir Eriksen í lok færslunnar. 

Hálf milljón hafði lækað færsluna hálftíma eftir að hún var birt. 

Tottenham endurbirti mynd Eriksens og sendir honum bataóskir. 

mbl.is