UEFA rannsakar hátterni Arnautovic

Marko Arnautovic ræðir málin við Ezgjan Alioski, sem á ættir …
Marko Arnautovic ræðir málin við Ezgjan Alioski, sem á ættir að rekja til Albaníu, eftir leikinn. AFP

Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, hefur hafið rannsókn á því hvort Marko Arnautovic, framherji austurríska landsliðsins, hafi gerst sekur um kynþáttafordóma þegar hann fagnaði marki sínu gegn Norður-Makedóníu í 3:1-sigri á Evrópumótinu í fótbolta á sunnudag.

Arnautovic skoraði þriðja og síðasta mark Austurríkis og virtist einungis reiðast við það, enda fagnaði hann með því að hreyta ókvæðisorðum í átt að leikmönnum Norður-Makedóníu.

Arnautovic á serbneskan föður og er sagður hafa blótað Albönum í sand og ösku, en allnokkrir leikmenn Norður-Makedóníu eiga ættir að rekja þangað, þar á meðal Ezgjan Alioski, sem Arnautovic virtist meðal annars beina orðum sínum að.

Sjálfur segist Arnautovic ekki hafa sagt neitt ósæmilegt og hann sé ekki rasisti.

Hann sætir þó rannsókn af hálfu UEFA og verði Arnautovic fundinn sekur um kynþáttafordóma má hann búast við því að verða bannaður frá frekari þátttöku á EM hið minnsta.

mbl.is