Vardy orðinn meðeigandi knattspyrnufélags

Jamie Vardy er einn besti sóknarmaður ensku úrvalsdeildarinnar.
Jamie Vardy er einn besti sóknarmaður ensku úrvalsdeildarinnar. AFP

Enski knattspyrnumaðurinn Jamie Vardy, sem leikur með Leicester City í heimalandinu, er orðinn meðeigandi bandaríska knattspyrnufélagsins Rochester Rhinos.

Nashyrningarnir hafa verið í keppnishléi um fjögurra ára skeið vegna fjárhagsörðugleika og vonast nú eftir að geta hafið keppni að nýju á næsta ári með hjálp Vardys.

Liðið var stofnað árið 1996 í New York-ríki. Það varð fyrsta liðið utan MLS-deildarinnar, efstu deildar Bandaríkjanna, til að vinna bandarísku bikarkeppnina, sem það gerði árið 1999 með því að vinna fjögur MLS-lið.

„Þetta er algjör hvalreki fyrir Rochester og Nashyrninganna. Jamie er vel þekktur í knattspyrnuheiminum og við erum himinlifandi með það að hann gengur til liðs við okkur sem meðeigandi,“ sagði í yfirlýsingu eigenda félagsins, hjónanna Davids og Wendy Dworkin.

„Vonandi munu þessar stórkostlegu fréttir vekja von í brjósti allra þeirra sem tengjast félaginu um að það sé bjart fram undan,“ sagði einnig í yfirlýsingu Dworkin-hjónanna.

mbl.is