Alfons lagði upp mark í stórsigri

Alfons Sampsted í leik með Bodö/Glimt.
Alfons Sampsted í leik með Bodö/Glimt. Ljósmynd/Jon Forberg

Alfons Sampsted lagði upp eitt mark fyrir norsku meistarana Bodö/Glimt þegar þeir léku annað Íslendingalið, Strömsgodset, grátt í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.

Lokatölur urðu 7:2 fyrir Bodö/Glimt sem var komið í 4:0 fyrir hlé og komst í 7:1. Alfons lagði upp þriðja markið í fyrri hálfleiknum en hann lék allan leikinn.

Valdimar Þór Ingimundarson kom inná hjá Strömsgodset á 68. mínútu og Ari Leifsson kom inn á sex mínútum síðar.

Bodö/Glimt er með 19 stig á toppi deildarinnar,  tveimur stigum meira en Molde, en Strömsgodset er með sjö stig í áttunda sætinu.

Molde vann öruggan sigur á Sarpsborg, 4:1. Björn Bergmann Sigurðarson leikur með Molde en er úr leik á næstunni eftir aðgerð á baki. Emil Pálsson lék á miðjunni hjá Sarpsborg en var skipt af velli á 63. mínútu. Sarpsborg er með 6 stig í tíunda sæti deildarinnar.

mbl.is