Í bann fyrir að móðga andstæðing

Marko Arnautovic lætur Gianni Alioski heyra það eftir markið.
Marko Arnautovic lætur Gianni Alioski heyra það eftir markið. AFP

Austurríkismaðurinn Marko Arnautovic hefur verið úrskurðaður í eins leiks bann á Evrópumótinu í fótbolta fyrir að móðga Gjanni Alioski í leik Austurríkis og Norður-Makedóníu í 1. umferð mótsins. Austurríki leikur því án sóknarmannsins gegn Hollandi á morgun. 

Arnautovic skoraði þriðja mark Austurríkis í 3:1-sigri en í stað þess að fagna markinu reiddist hann og fór að rífast við Alioski, sem er af albönskum ættum, en Arnautovic er af serbneskum ættum. Samband Albaníu og Serbíu hefur oft verið stirt. 

Arnautovic, sem spilaði með West Ham og Stoke á Englandi, baðst afsökunar eftir leik en bar af sér sakir um kynþáttafordóma.

mbl.is