Eriksen: Fjárinn, ég er bara 29 ára

Christian Eriksen er borinn af velli með meðviktund.
Christian Eriksen er borinn af velli með meðviktund. AFP

Það fyrsta sem Christian Eriksen, leikmaður danska knattspyrnulandsliðsins og Inter Mílanó, sagði er hann vaknaði aftur til lífsins eftir hjartastopp í leik Dana og Finna á Evrópumótinu var: „Fjárinn, ég er bara 29 ára.“

Þýski læknirinn Jens Kleinefeld bjargaði lífi Eriksens með því að gefa honum hjartastuð á Parken-vellinum í Kaupmannahöfn eftir að hjarta danska leikmannsins hætti að slá.

„Það á að gefa hjartastuð á fyrstu tveimur mínútunum. Það gerðist eftir 2-3 mínútur hjá Eriksen. Líkurnar á að hann myndi lifa af voru 90 prósent. Líkurnar minnka um tíu prósent með hverri mínútunni sem líður. Við þurftum að vera snöggir,“ sagði Kleinefeld við þýska blaðið Bild.

„Ég sá að hjartastuðið gekk upp og 20-30 sekúndum síðar var hann með meðvitund. Hann opnaði augun og talaði við mig. Ég spurði hann á ensku hvort hann væri í lagi. Hann svaraði því játandi og bætti svo við: „Fjárinn, ég er bara 29 ára.“ Ég sagði honum að það væri allt í lagi núna og hann væri ekki lengur í hættu. Svona á að bjarga mannslífi. Það var fallegt augnablik þegar hann opnaði augun,“ bætti Kleinefeld við.

mbl.is