Rekinn eftir aðeins 23 daga í starfi

Gennaro Gattuso mun ekki stýra Fiorentina á komandi tímabili.
Gennaro Gattuso mun ekki stýra Fiorentina á komandi tímabili. AFP

Gennaro Gattuso hefur verið rekinn sem knattspyrnustjóri Fiorentina eftir aðeins 23 daga við stjórnvölinn. Ástæðan er ágreiningur vegna leikmannakaupa.

Gattuso var ráðinn í lok maí og var ekki enn búinn að koma til móts við leikmannahóp sinn enda er Evrópumótið í fullum gangi og þeir leikmenn Fiorentina sem taka ekki þátt þar eru í sumarfríi.

Gattuso og stjórn Fiorentina greindi á um leikmannakaup, þar sem hann vildi dýrari leikmenn á við Sergio Oliveira hjá Porto og Goncalo Guedes hjá Valencia, á meðan stjórnin vildi einblína á ódýrari leikmenn.

Það vill svo til að Gattuso og Portúgalarnir Oliveira og Guedes eru allt skjólstæðingar umboðsmannsins þekkta frá Portúgal, Jorge Mendes, og er því útlit fyrir að stjórn Fiorentina hafi ekkert verið um það gefið að Mendes væri að reyna að koma sínum mönnum að hjá félaginu í stórum stíl.

Gattuso sagði skilið við Napoli undir lok nýafstaðins tímabils og samdi við Fiorentina en því samstarfi er nú lokið. Rudi Garcia, fráfarandi stjóri Lyon, hefur verið orðaður við starfið ásamt Claudio Ranieri.

mbl.is