Staðfesta brottför fyrirliðans

16 ára dvöl Sergio Ramos hjá Real Madríd er að …
16 ára dvöl Sergio Ramos hjá Real Madríd er að líða undir lok. AFP

Spænska knattspyrnufélagið Real Madríd mun í dag tilkynna formlega um brottför fyrirliðans Sergio Ramos eftir 16 ára dvöl hjá félaginu, en samningur hans rennur út í lok mánaðarins.

Ramos, sem er 35 ára, mun róa á önnur mið eftir að hafa gengið til liðs við Madrídar-stórveldið frá Sevilla aðeins 19 ára gamall árið 2005.

Óhætt er að segja að hann hafi verið sigursæll hjá félaginu, þar sem hann vann Meistaradeild Evrópu fjórum sinnum og spænsku 1. deildina fimm sinnum. Meðan á dvöl hans stóð hjá Real varð hann einnig heimsmeistari með Spáni og Evrópumeistari í tvígang.

Lék hann 671 leik og skoraði 101 mark í öllum keppnum fyrir félagið, enda gífurlega hættulegur í föstum leikatriðum.

Ramos er talinn einn af bestu miðvörðum sinnar kynslóðar og jafnvel einn sá besti frá upphafi.

Viðræður um nýjan samning sigldu í strand og hefur Ramos verið orðaður við endurkomu til uppeldisfélagsins Sevilla, þótt ekkert sé staðfest í þeim efnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert