Þrjú lið komin áfram – eitt er endanlega úr leik

Hollendingar hafa þegar unnið C-riðilinn.
Hollendingar hafa þegar unnið C-riðilinn. AFP

Eftir leiki dagsins á Evrópumóti karla í knattspyrnu er tveimur umferðum lokið í þremur riðlum af sex. Þegar eru þrjú lið búin að tryggja sér farseðlana í sextán liða úrslitin en eitt lið er þegar úr leik og mun örugglega fara heim að riðlakeppninni lokinni.

Ítalía, Belgía og Holland, sem eru í efstu sætum A-, B- og C-riðla, eru öll með sex stig og búin að gulltryggja sér sæti í sextán liða úrslitunum. Hollendingar eru þó eina liðið sem er búið að tryggja sér sigur í sínum riðli.

Norður-Makedónía er fyrsta liðið til að falla úr keppni. Norður-Makedónar geta ekki komist úr neðsta sæti C-riðils þótt þeir myndu vinna Hollendinga í lokaumferðinni.

Þá er líka komin aðeins skýrari mynd á hvaða lið gætu mögulega mæst í sextán liða úrslitunum. Þótt margt eigi eftir að breytast þegar annarri umferð lýkur í D-, E- og F-riðlum þá er fróðlegt að skoða sextán liða úrslitin eins og þau líta út núna:

Belgía (1B)  Sviss (3A)
Ítalía (1A)  Úkraína (2C)
Portúgal (1F)  Finnland (3B)
England (2D)  Spánn (2E)
Slóvakía (1E)  Austurríki (3C)
Tékkland (1D)  Frakkland (2F)
Holland (1C)  Svíþjóð (3E)
Wales (2A)  Rússland (2B)

Þýskaland og Króatía eru enn utan sextán liða úrslitanna sem þau lið sem eru með lakastan árangur í þriðja sæti riðlanna. En þau eru að sjálfsögðu með leik minna en liðin í A-, B- og C-riðlum.

Tyrkland, Danmörk, Skotland, Pólland og Ungverjaland geta líka komist áfram þótt þau sitji sem stendur í botnsætum sinna riðla.

mbl.is