Eriksen útskrifaður af sjúkrahúsi

Christian Eriksen í baráttunni við Tim Sparv í leiknum örlagaríka …
Christian Eriksen í baráttunni við Tim Sparv í leiknum örlagaríka gegn Finnum. AFP

Knattspyrnumaðurinn Christian Eriksen hefur verið útskrifaður af Ríkissjúkrahúsinu í Kaupmannahöfn eftir að hafa farið í hjartastopp í leik Danmerkur og Finnlands í B-riðli Evrópumóts karla á Parken í Kaupmannahöfn á laugardaginn síðasta.

Þetta kom fram í tilkynningu sem danska knattspyrnusambandið sendi frá sér fyrir stuttu en Eriksen gekkst undir aðgerð í vikunni þar sem bjargráður var græddur í hjarta hans.

Nota þurfti hjartastuðtæki til þess að koma Eriksen aftur til meðvitundar í leiknum gegn Finnlandi en leiknum var frestað fram á kvöld vegna atviksins.

Mikið hefur verið rætt og ritað um atvikið síðan en Eriksen var fluttur með hraði á Ríkissjúkrahúsið í Kaupmannahöfn og hafði dvalið þar síðan.

Í tilkynningu danska knattspyrnusambandsins er fólk einnig hvatt til þess að veita Eriksen og fjölskyldu hans næði og svigrúm á þessum sérstöku tímum.

mbl.is